Þorbjörg Sigríður segir, í samtali við fréttastofu, að hún hafi nú fundað með þeim báðum en sitt í hvoru lagi.
„Já, það hefur aðeins hreyfst í þeim málum. Ég hef átt fundi með ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara, sitt í hvoru lagi til að ræða stöðu málsins.“
Verður að finnast lausn á þessum vanda
Þorbjörg Sigríður sagði eftir fyrsta ríkisstjórnarfund ríkisstjórnarinnar á þorláksmessu rétt að hún hefði fengið málið í fangið á fyrsta degi í ráðuneytinu. Þá hafði Helgi Magnús snúið aftur til starfa hjá embætti ríkissaksóknara en hann hafði verið í veikindaleyfi um margra vikna skeið.
Þorbjörg Sigríður sagði þá bagalegt að þessi tvö gætu ekki starfað saman.
„Það lá fyrir ákvörðun forvera míns í þessu máli. Í samhengi hlutanna er ekki langur tími liðinn en þetta mál er til skoðunar í ráðuneytinu,“ segir dómsmálaráðherra nú.
Meginmarkmiðið það að kerfið virki og njóti trausts
Spurð hvort hún meti það svo að hægt væri að ná niðurstöðu sem báðir aðilar gætu sætt sig við sagðist hún nú hafa hlustað á afstöðu beggja.
„En stóra hagsmunamál almennings er að réttarkerfið virki. Við erum að horfa uppá það að ákæruvaldið, sem er veigamikill hlekkur í þeirri keðju sem réttarkerfið er, virki. Njóti trausts og sé starfhæft.“
Meginmarkmiðið væri að kerfið virkaði. Það væru þeir hagsmunirnir sem hún vildi fyrst og síðast verja í þessu máli. Fundirnir hefðu miðað að því að finna lausnir að teknu tilliti til þeirra.
En snýst þetta mál ekki öðrum þræði um að ríkissaksóknari hafi vald yfir þeirri stofnun sem hún veitir forstöðu?
„Jú, vitaskuld er það stórt atriði í málinu. Ákvörðun forvera míns, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, í málinu liggur fyrir um hverjar heimildir ríkissaksóknara voru til að áminna og annað í þeim efnum.“
Nú eru opinberir starfsmenn stundum færðir til í störfum sínum, er það eitthvað sem kemur til greina?
„Ég er búin að hitta þau tvö og heyra þeirra sjónarmið. Markmið mitt er að kerfið fúnkeri og njóti trausts almennings og ég er vitaskuld ekki að fara að leysa úr því hér í viðtali við þig.“