Greint er frá andláti hennar í Morgunblaðinu í dag, en hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi síðastliðinn sunnudag.
Ragnheiður fæddist 1. maí 1937 á Ísafirði en flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni sex ára að aldri. Foreldrar Ragnheiðar voru Torfi Hjartarson, tollstjóri í Reykjavík og sáttasemjari ríkisins, og Anna Jónsdóttir.
Í æviágripi Ragnheiðar segir að hún hafi lokið stúdentsprófi frá MR árið 1956, BA-prófi í latínu og grísku frá Háskóla Íslands árið 1961 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum árið 1971. Síðar stundaði hún einnig nám í íslenskri málfræði og málvísindum.
Ragnheiður kenndi latínu við MR á árunum 1959 til 1960 og aftur 1962 til 1996, en sömuleiðis grísku á árunum 1972 til 1975.
Hún var deildarstjóri við skólann 1972 til 1992, sat í skólastjórn 1976 til 1978 og fulltrúi kennara í skólanefnd skólans 1990 til 1995. Hún tók svo við stöðu rektors skólans 1995 og gegndi stöðunni til 2001.
Ragnheiður var einnig virk í félagsstörfum og var varaformaður Bandalags háskólamanna 1982 til 1986 og í ritstjórn BHM-blaðsins á sama tíma. Þá var hún félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur.
Eiginmaður Ragnheiðar var Þórhallur Vilmundarson, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Örnefnastofnunar. Hann lést árið 2013. Ragnheiður og Þórhallur eignuðust þrjú börn, þau Guðrúnu, dósent í íslenskri málfræði við HÍ, Torfa, doktor í tölvusjón og lektor við HR, og Helgu, byggingarverkfræðing.