Erlent

Trúir ekki að Trump muni beita her­valdi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mette segist búast við því að ræða við Trump eftir að hann verði kjörinn forseti.
Mette segist búast við því að ræða við Trump eftir að hann verði kjörinn forseti. EPA

Neyðarfundur flokksformanna allra flokka á danska þinginu sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði lauk í kvöld, fimmtudag. Fundarefnið var umtal um mögulega yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi, sem er sjálfsstjórnarsvæði innan Danska konungsveldisins.

Þó að það sem fór fram á fundinum eigi að vera trúnaðarmál veittu einhverjir stjórnmálamannanna viðtöl að honum loknum, þar á meðal leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja.

„Þú getur tekið Donald Trump alvarlega án þess að trúa honum bókstaflega,“ hefur Berlingske Tidende eftir Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur.

Formenn dönsku stjórnarflokkanna: Troels Lund Poulsen, Mette Frederiksen, Lars Løkke Rasmussen.EPA

Mikið hefur verið fjallað um mögulega yfirtöku Bandaríkjanna undir komandi stjórn Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta. Sérstaklega eftir Grænlandsheimsókn sonar Trumps, Donalds Trumps yngri, sem ýtti undir orðróma um yfirtökuna, en líka vegna ummæla Trumps um að hann útiloki ekki að beita hervaldi og viðskiptaþvingunum til að ná sínu fram í málinu.

Mette var spurð hvað henni þætti um þessi ummæli Trumps.

„Ég hef enga ástæðu til að trúa því að það séu kringumstæðurnar sem bíði okkar,“ sagði hún.

Að sögn Lars Løkke bíða dönsk stjórnvöld nú eftir því að Trump taki embætti. Þá muni þau opna á samtal við hann um málið

Samkvæmt Berlingske hafa hvorki Mette né Lars Løkke átt í sambandi við Trump undanfarið, og heldur ekki Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur.

„Það er náið samstarf milli Bandaríkjanna og Danmerkur,“ er haft eftir Mette.

„Við höfum óskað eftir því að ræða um þetta, og ég geri ráð fyrir því að samtalið muni eiga sér stað. En ég býst ekki við því að það verði fyrr en eftir 20. janúar,“ sagði hún einnig, en þá verður Trump forseti Bandaríkjanna á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×