Erlent

Einn hinna látnu í New Orleans tengdur konungs­fjöl­skyldunni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Edward Pettifer lést í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á nýársdag. 
Edward Pettifer lést í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á nýársdag.  Metropolitan lögregluembættið

Karl Bretakonungur hefur vottað fjölskyldu hins 31 árs gamla Edward Pettifer, Breta sem lést í hryðjuverkaárás í New Orleans á nýársdag, samúð. Hann var sonur Alexöndru Pettifer, barnfóstru Harrys og Vilhjálms Bretaprins. 

BBC hefur þetta eftir heimildum sem standa nærri konungsfjölskyldunni. Greint var frá því í gær að Bretinn Pettifer væri meðal hinna fjórtán sem létust þegar maður ók bíl inn í þvögu fólks á götunni Bourbon Street í New Orleans. 

Nú segir miðillinn frá því að hann sé sonur Alexöndru Pettifer, sem er einnig þekkt sem Tiggy Legge-Bourke. Hún starfaði sem barnfóstra Harry og Vilhjálms Bretaprins á uppvaxtarárum þeirra. 

Í frétt Mbl.is um málið kemur fram að Pettifer hafi starfað sem leiðsögumaður á Íslandi nokkur sumur. 

Karl Bretakonungur hefur samkvæmt heimildum BBC vottað fjölskyldu Pettifer samúð sína. Þá hefur Vilhjálmi og Harry verið greint frá fréttunum. 

Gefin hefur verið út dánarorsök til bráðabirgða, en Pettifer er sagður hafa látist af völdum áverka sem hlutust þegar bílnum var ekið á fólkið í þvögunni. 

Árásarmaðurinn Shamsud-Din Bahar Jabbar, 42 ára maður frá Texas, var skotinn til bana af lögreglumönnum meðan á árásinni stóð. Starfsmenn alríkislögreglunnar segja liggja fyrir að hann hefði verið innblásinn af Íslamska ríkinu. Þá er hann talinn hafa staðið einn að verki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×