Fjölskylda MacInnes greindi frá andláti hans á opinberri læksíðu leikarans á Facebook. Þar kemur fram að hann hafi látist friðsællega umkringdur fjölskyldu sinni á þorláksmessu. Ekki kemur fram hver orsök andlátsins var.
MacInnes fæddist 27. október 1947 í borginni Windsor í Ontario í Kanada. Fyrsta hlutverk hans á stóra skjánum var smávægileg rulla í dystópíu-íþróttamyndinni Rollerball. Aðeins tveimur árum síðar landaði hann sínu þekktasta hlutverki sem Jon „Dutch“ Vander í Stjörnustríði árið 1977.
Költfígúra meðal aðdáenda
Persónan sem gekk einnig undir nafninu „Gullni leiðtogi“ var einn af flugmönnum uppreisnarhersins sem tóku þátt í og létust við að eyðileggja Helstirnið.
Rulla MacInnes var ekki stór en hann var þrátt fyrir það í miklu uppáhaldi hjá aðdáendum Stjörnustríðsmyndanna og var tíður gestur á ráðstefnum í tengslum við myndirnar. Rödd hans var síðan aftur notuð í myndinni Rogue One: A Star Wars Story árið 2016.
MacInnes lék í um fjörutíu kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á ferli sínum sem spannaði um fjóra áratugi. Auk fyrrnefndra mynda lék hann einnig í Witness árið 1985 sem spillti lögregluþjónninn Fergie, sem hokkíspilarinn Jean LaRose í grínmyndinni Strange Brew og í smærri hlutverkum í Superman II, Hellraiser II, Judge Dredd, Eyes Wide Shut, Hellboy og Captain Phillips.