Fótbolti

Þrír boðaðir í við­tal: Víkingar gáfu KSÍ grænt ljós á að ræða við Arnar

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson er einn þriggja þjálfara sem mun ræða við KSÍ um stöðu landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta
Arnar Gunnlaugsson er einn þriggja þjálfara sem mun ræða við KSÍ um stöðu landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta Vísir/Anton Brink

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur boðið þremur þjálfurum í viðtal um starf landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Arnar Gunnlaugsson er einn þeirra þjálfara en bæði er um að ræða íslenska og erlenda þjálfara. 

Víkingur Reykjavík hefur gefið forráðamönnum KSÍ leyfi til þess að ræða við þjálfara karlaliðs félagsins, Arnar Gunnlaugsson. Þetta staðfestir Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings R. í samtali við Vísi.

„Við Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ áttum samtal þar sem að óskað var eftir því að sambandið fengið heimild til þess að ræða við Arnar. Við hjá knattspyrnudeild Víkings höfum gefið þessum aðilum leyfi til þess að tala saman,“ segir Heimir í stuttu samtali við íþróttadeild Vísis.

Arnar er því einn þriggja þjálfara sem hafa fengið boð í starfsviðtal hjá KSÍ um landsliðsþjálfarastarfið en Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ staðfestir í samtali við Vísi að um bæði sé að ræða íslenska og erlenda þjálfara.

„Stjórnin vinnur að þessu þétt og örugglega og vonandi getum við fljótlega á nýju ári fært ykkur einhver tíðindi að þessu,“ segir Þorvaldur í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort búið væri að taka viðtöl við einhvern af þessum þremur þjálfurum sagði Þorvaldur að þau hafi ekki átt sér stað.

Greint var frá því í fundargerð stjórnar knattspyrnusambandsins frá 20.desember síðastliðnum Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ hafi á umræddum fundi farið yfir stöðu mála varðandi ráðningarferli þjálfara A-landsliðs karla en hann ásamt varaformönnum sambandsins myndar starfshóp sem hefur leitt þjálfaraleitina með stuðningi knattspyrnusviðs.Hópurinn óskaði eftir heimild stjórnar til að bjóða þremur þjálfurum í viðtal um starfið og stjórn KSÍ samþykkti þá tillögu. 

Auk Arnars Gunnlaugssonar hafa Freyr Alexandersson og Norðmaðurinn Per Mathias Högmo einna helst verið orðaðir við landsliðsþjálfarastarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×