Rúv greinir frá og hefur eftir heimildum að netáfengisverlsanirnar Nýja vínbúðin og Smáríkið séu á meðal þeirra sem lögregla hafi skipt sér af.
Í áfengislögum er kveðið á um að óheimilt sé að afhenda áfengi á „helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.“
Meðal lögboðinna helgidaga eru 24. desember frá kl. 13, 25., 26. og 31. desember frá klukkan 13.
Haft er eftir Ásmundi Rúnari Gylfasyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að rekstraraðilar hafi brugðist vel við og orðið við tilmælum um að loka.
Töluverð aukning hefur orðið á netverslun Íslendinga með áfengi, sem er á sama tíma afar umdeild. Nýr ráðherra Flokks fólksins telur til að mynda að netverslun sé skýrt brot á áfengislöggjöf.
Þá hefur fráfarandi dómsmálaráðherra kynnt drög að frumvarpi sem myndi leyfa innlenda netverslun með áfengi. Eigandi slíkrar verslunar telur að gengið sé langt í drögunum til að þóknast „hugarburði þeirra sem aðhyllast ríkisforsjárhyggju“