Stunguárásin mun hafa átt sér stað á starfsmannafundi framleiðslufyrirtækisins Anderson Express á skrifstofu þess í borginni Muskegon.
Bandarískir miðlar greina frá því að sá sem er grunaður um verknaðinn heiti Nathan Mahoney. Hann er sagður hafa stungið yfirmann sinn, Erik Denslow, með hnífi í síðuna, og síðan flúið af vettvangi á ökutæki. Hann mun síðan hafa verið gómaður af lögreglu um korteri seinna.
Ástand Denslow er sagt alvarlegt, en þó er talið að hann sé ekki í lífshættu.
Haft er eftir samstarfsmönnum Mahoney að hann hafi verið þögull vinnufélagi.
Lögreglan segir tilætlun hans ekki liggja fyrir, en ekki sé útilokað um hafi verið að ræða „hermikrákuárás“ sem átti að líkjast skotárásinni í New York fyrr í mánuðinum, en í því máli er Luigi Mangione grunaður um að hafa orðið Brian Thompson, yfirmanni hjá sjúkratryggingafyrirtækinu UnitedHealtcare, að bana.
„Ég held að allir hugsi til þess á þessum tímapunkti,“ er haft eftir Greg Poulson aðstoðarlögreglustjóra. „Við erum að skoða alla samfélagsmiðla hans, og efni sem hann var að skoða á raftækjum til þess að komast að því hver áform hans voru.“