Fréttastofa BBC greinir frá.
Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare var skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan-eyju í New York borg á miðvikudaginn þar sem Thompson var að halda árlega fjárfestaráðstefnu. Svo virðist sem voðaverkið hafi verið þaulskipulagt en á myndskeiði af atvikinu má sjá manninn bíða eftir Thompson áður en hann skýtur hann í bakið með skammbyssu með hljóðdeyfi.
Svo virðist sem maðurinn hafi flúið vettvang á hjóli í Central Park-almenningsgarð þar sem honum tókst að hylja slóð sína. Talið er að maðurinn hafi losað sig við bakpokann sinn í garðinum. Lögreglan í New York leitar nú að bakpoka mannsins í garðinum með hjálp fjölda dróna.
Nú er talið að maðurinn hafi farið í rútu skammt frá Times Square skömmu eftir að hann huldi slóð sína í Central Park. Lögreglan í Atlanta hefur boðið fram aðstoð sína. Rútuferð á milli borganna tekur um átján klukkustundir en talið er að árásamaðurinn hafi einnig komið til New York með rútu frá Atlanta þann 24. nóvember eða tíu dögum fyrir voðaverkið.
Athygli vekur að ekki sé enn búið að finna árásamanninn en um fimmtán þúsund öryggismyndavélar eru í New York-borg og því erfitt að hverfa sporlaust.
Sagt var frá því í gær að morðinginn hefði skrifað á patrónur sem urðu eftir á vettvangi morðsins. Á meðal þess sem hann hafði skrifað voru orðin „Defend“, „delay“ og „deny“ eða „Verja“, „tefja“ og „neita“.