Hlaðvarpið Ólafssynir í Undralandi, sem er í umsjá Arons Más Ólafssonar og Arnars Þórs Ólafssonar, hefur nýlega gefið út alla þættina í þríleiknum Stjörnuvættir en þar bregða þeir á leik í áður óreyndu formi í hlaðvarpssenunni. Gestur þríleiksins er enginn annar en Steindi.
„Söguþráður þríleiksins er byggður á handriti sem gervigreindin uppfærir í rauntíma á meðan á tökum stendur. Ég, Aron og Steindi eru aðalpersónur í leikþættinum og taka ákvarðanir um hvernig þeir skuli bregðast við vendingum sem gervigreindin fléttar inn í söguna. Þannig hefur gervigreindin hlutverk sem svokallaður „Gamemaster“ eða leikjameistari,“ segir Arnar Þór.
Nú hafa allir þrír þættirnir verið gefnir út. Í fyrstu tveimur þáttunum tekst hópurinn á við ýmsar áskoranir, leysir gátur og hittir litríkar aukapersónur, bæði skáldaðar og raunverulegar. Sem dæmi bregða Inga Sæland og Sverrir Bergmann fyrir í sögunni.
Aðspurðir hvort það sé í kortunum að gefa út fleiri eða jafnvel lengri leikþætti telur Aron það vera raunhæfan möguleika en þeir bíði enn eftir því að gervigreindin verði öflugri.
„Þrátt fyrir að við séum gríðarlega sáttir með útkomu þessa þríleiks þá fundum við fyrir því að gervigreindin á enn þá talsvert langt í land til að höndla mikið lengra handrit.“