Í samtali við tímaritið GQ ræddi Kidman opinskátt um þetta.
„Lífið, úff. Það er algjörlega ferðalag og lífið nær þér svolítið þegar þú eldist. Ég vakna stundum klukkan þrjú um nótt og fer að hágráta yfir því.“
Kidman er gift tónlistarmanninum Keith Urban og þau eiga saman tvær dætur sem eru komnar á unglingsaldur. Hún missti móður sína í haust og segir lífsreynsluna hafa verið mjög mótandi.
„Það er svo margt sem hefur áhrif á viðhorf manns til lífsins. Að muna að við erum dauðleg. Tengingar við aðra. Þegar lífið valtar yfir þig. Það að missa foreldra, ala upp börn, vera í hjónabandi og allir þessir hlutir sem eru órjúfanlegur partur af þér sem manneskja.“
Hún segir að þessi djúpa tenging við tilfinningalíf sitt komi að góðum notum í leiklistinni.
„Ég er tilbúin að fara á hvaða stað sem er innra með mér til þess að karaktersköpunin mín verði sönn og djúp.“
