Erlent

Stefna lög­reglu og leyni­þjónustu vegna morðsins á Malcolm X

Kjartan Kjartansson skrifar
Malcolm X var 39 ára gamall þegar hann var ráðinn af dögum í New York árið 1965.
Malcolm X var 39 ára gamall þegar hann var ráðinn af dögum í New York árið 1965. AP

Fjölskylda Malcolms X, blökkumannaleiðtoga sem var myrtur fyrir tæpum sextíu árum, stefndi bandarísku alríkislögreglunni og leyniþjónustunni auk lögreglunnar í New York fyrir að koma ekki í veg fyrir morðið. 

Malcolm X var herskár leiðtogi samtakanna Þjóðar íslams sem aðhylltist svarta þjóðernishyggju. Hann sagði sig frá samtökunum árið 1964 og mildaði afstöðu sína nokkuð til aðskilnaðs kynþátta í Bandaríkjunum. Ári síðar var hann myrtur fyrir utan Audobon-danssalinn í New York.

Þáverandi liðsmaður Þjóðar íslams játaði að að hann hefði verið einn þriggja launmorðingja sem réðu Malcolm X af dögum. Reuters-fréttastofan segir að vangaveltur hafi lengi verið uppi um að yfirvöld hafi vitað af áformunum um að myrða leiðtogann en kosið að koma ekki í veg fyrir þau.

Í málsókn Ilyasah Shabazz, dóttur Malcolms X, og tveggja systra hennar á hendur lögreglunni í New York, alríkislögreglunni FBI og leyniþjónustunni CIA er því haldið fram að stofnanirnar hafi leyft tilræðinu að fara fram. Þær hefðu jafnframt hylmt yfir sönnunargögn um að þær hefðu haft vitneskju um morðið fyrir fram.

„Við teljum að þau hafi öll lagt á ráðin um að myrða Malcolm X, einn helsta hugsuð 20. aldarinnar,“ sagði Ben Crump, lögmaður fjölskyldunnar á fréttamannafundi sem var haldinn þar sem blökkumannaleiðtoginn var myrtur.

Shabazz var tveggja ára þegar faðir hennar var myrtur fyrir framan hana, móður hennar og systkini.

Þekkt er að alríkislögreglan undir stjórn J. Edgars Hoover njósnaði um Martin Luther King, ein helsta blökkumannaleiðtoga Bandaríkjanna, og reyndi að koma á hann óorði á sjöunda áratug síðustu aldar. King var myrtur þremur árum eftir að Malcolm X féll fyrir hendi morðingja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×