„Þetta er auðvitað ekki óskastaða, en ég er samt sem áður bara mjög bjartsýnn á það að við náum inn á þing,“ sagði Finnur Ricart Andrason, oddviti Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann bendti á að möguleiki væri á því að flokkurinn myndi fá kjördæmakjörna þingmenn þó hann nái ekki lágmarkinu til að fá jöfnunarsæti.

Finnur segist þó áhyggjufullur vegna þess að umhverfismál séu ekki að fá nægan hljómgrunn í aðdraganda kosninga.
„En það er svo sem mjög skiljanlegt þegar fólk á ekki salt í grautinn eða fær ekki viðeingandi heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé sterk vinstri stefna til staðar í samfélaginu, því án hennar náum við ekki árangri í umhverfismálunum, og öfugt líka: Ef við náum ekki fullnægjandi árangri í umhverfismálum þá náum við ekki að tryggja jöfnuð í samfélaginu til lengri tíma.“
Í fréttum Stöðvar 2 sagði Davíð Þór Jónsson, oddviti Sósíalista í Kraganum, að könnun Maskínu sýndi það sem Sósíalistar hafi verið að finna fyrir, vaxandi meðbyr í samfélaginu.
„Við finnum það þar sem við förum að okkar málflutningur nýtur hljómgrunns. Við tölum fyrir mjög róttækum og mjög gagngerðum grundvallarbreytingum,“ sagði Davíð Þór

Af hverju ætli fólk sé að halla sér frekar að Sósíalistum heldur en VG?
„Kannski af því að fyrir sjö árum stungu VG stóran hlut kjósenda sinna í bakið, með því að mynda ríkisstjórn sem eiginlega strýddi gegn öllu því sem VG hafði talað um í aðdragandanum,“ svaraði Davíð Þór.
Finnur sagði að það gæti vel verið. Honum þætti þó mikilvægt að rödd Vinstri grænna myndi enn heyrast á þingi. „Það er ekki nóg að vera með vinstri stefnu heldur þarf líka að vera með sterka græna stefnu, til þess að ná þessum grundvallarmarkmiðum um jöfnuð í samfélaginu.“
Davíð Þór sagði Sósíalista með mjög skýra stefnu í umhverfismálum. „Við leggjum ríka áherslu á að umhverfið njóti alltaf vafans frekar en mennskir hagaðilar.“