Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play til Kauphallarinnar. Þar segir að samdrátturinn þegar kemur að farþegafjölda sé í takt við áætlun félagsins um að draga úr framboði sínu á tengiflugi yfir Atlantshafið.
„Stundvísi Play var 91,4% í liðnum október, samanborið við 85,8% í október í fyrra. Af þeim sem ferðuðust með Play í október voru 33,4% á leið frá Íslandi, 39,1% voru á leið til Íslands og 27,5% voru tengifarþegar (VIA).
Play heldur áfram að bæta við sig markaðshlutdeild á heimamarkaði, en farþegum sem flugu með Play frá Íslandi fjölgaði um 5% á milli ára, úr 43.872 í október í fyrra í 46.143 í október í ár. Sömuleiðis fjölgaði farþegum um 3% sem flugu með Play til Íslands, úr 52.368 í október 2023 í 54.018 í október 2024.
Play hefur aukið sætaframboð á sólarlandaáfangastöðum í Suður-Evrópu um 17% en frammistaða þeirra markaða hefur engu að síður haldið sér með mikilli eftirspurn. Þróun á einingatekjum var jákvæð í liðnum september, samanborið við september í fyrra. Er það í fyrsta sinn síðan í vor sem einingatekjurnar eru hærri en í samsvarandi mánuði í fyrra. Þessi þróun hélt áfram í október og eru horfurnar fyrir það sem eftir lifir árs og inn í það næsta jákvæðar,“ segir í tilkynningunni.
Jákvæð áhrif
Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, að félagið sé þegar farið að sjá jákvæð áhrif þeirrar ákvörðunar að leggja meiri áherslu á sólarlandaáfangastaði í Suður-Evrópu.
„Annan mánuðinn í röð eru einingatekjur hærri samanborið við sama mánuð 2023 og þrátt fyrir að framboðið hafi verið aukið þá hefur það ekki komið niður á frammistöðu þeirra áfangastaða. Við settum met í sætanýtingu í októbermánuði og horfurnar út árið og inn í næsta ár eru jákvæðar.
Stundvísi okkar í októbermánuði var framúrskarandi sem gerir PLAY enn eina ferðina að stundvísasta flugfélaginu með brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. Þetta er afrakstur þeirrar gríðarlegu vinnu sem samstarfsfólk mitt hjá PLAY skilar á hverjum degi til að tryggja farþegum okkar öruggt og áreiðanlegt ferðalag,” segir Einar Örn.