Skoðun

Er skárra að kasta upp um dómsniðurstöðuna en að dómarinn dæmi?

Jörgen Ingimar Hansson skrifar

Það orð fer af nokkrum tegundum dóms­mála að þau fari mjög á einn veg óháð réttlæti, sanngirni og heilbrigðri skyn­semi. Þetta virðist ganga svo langt að jafnvel væri nær lagi að kasta upp um dóms­niðurstöðuna en kveða upp dóm.

Þessi einstefna ríkir þegar einstaklingur meðal almennings á í höggi við sterkan aðila í þjóð­félaginu. Auk einstaklinga af auð- og yfirstétt getur þessi sterki aðili verið hið opin­bera, banki, tryggingafélag og hvaða stórfyrirtæki sem er. Það á rót sína að rekja til margs konar atriða sem ég hef samanlagt dregið undir heitið rétt­læti hins sterka í samnefndri bók um málið og ýms­um greinarskrifum og erindum. Meginatriðið er að hið háa Alþingi hefur tilhneig­ingu til lagasetninga hin­um sterka í vil og dóms­kerfið til að úrskurða honum í vil.Þetta endurspeglast með­al ann­ars í því hve dýr dómsmálin eru látin vera og hve miklir mögu­leik­ar eru á því að gera þau nán­ast eins dýr og hinn sterki vill að þau verði. Þau birtast einnig í laga­setn­ing­um og hindr­un­um á því að hinn veikari geti stýrt máli sínu í höfn, dómar­inn telji hagstæð­ara fyrir sig að dæma hinum sterkari í vil og svo fram­vegis

Þessi einstefna ríkir í svikamálum, þar sem svikarinn nýtur þess að vera með svip­aða hags­muni og stöðu og hinn sterki og getur því beitt svipuðum aðferðum sem opinberar að Alþingi og dómskerfið styðji í raun glæpsamlega starfsemi í landinu (með því að draga taum hins sterka). Þetta birtist einnig í því að svindl sem ekki nemur hærri upphæð en 10-20 milljónum króna er vafasamt eða jafnvel þýð­ing­arlaust að leggja fyrir dóm vegna kostnaðar og kostnaðaráhættu við að reka dóms­mál. Kostnaðurinn geti hæglega numið hinni sviknu upphæð að minnsta kosti og hættan á að tapa málinu sem veikari aðilinn sé of mikil.

Þessi einstefna ríkir í nauðgunarmálum og kynferðislegum áreitismálum. Ástæð­­ur er að finna í rétt­læti hins sterka sem birtist í hefð fyrir því að þau séu ekki til­tökumál í augum yfir­valda enda voru gerningsmennirnir oft úr yfirstétt lands­ins. Alþingi Íslands heldur þess­ari hefð til streitu á þeim grundvelli að erfið­lega gangi að sanna gerninginn. Það er aðeins rétt að hluta til, einnigvegna þess hvernig lögin eru. Er það ekki einmitt Alþingi sem ræður hvernig lögin eru í land­inu. Ekki hefur verið gætt að því að sönnunarbyrðin hæfi einnig þessum mála­flokki auk þess sem orð á móti orði virðist hafa haft yfirgnæfandi vigt hjá starfsmönnum lögreglunnar og saksóknara sem virðast of yfirhlaðnir störfum til þess að taka almennilega á mál­unum.

Þessi einstefna ríkir í forsjármálum barna. Þar hefur móðirin yfirhöndina gagn­vart föðurn­um að því er virðistvegna þess að dómskerfið situr fast í dómsvenjum sem væntanlega voru eðlilegar á árunum 1950 – 1970 og fyrir þann tíma þegar faðirinn sá um fjáröflunina en móðirin um heimilið og börnin.

Þrátt fyrir það að ég hafi hér dregið ofangreinda málaflokka fram virðist þetta ríkja í meira og minna í öllu dómskerfinu en er mest áberandi í þeim.

Þess verður vart að í einstökum atriðum hefur dómskerfið þegjandi og hljóðalaust dæmt eftir réttlæti, sanngirni og heil­brigðri skyn­semi.Einhvern veginn grun­­­­ar mig að það hafi einkum verið gert þegar aðili í yfir­stétt hafi þurft á því að halda.

Í öllum umræðum um dómsmál, hvort sem talað er um það í ræðuhöldum for­svars­manna þjóðarinnar eða í spjalli manna á milli, er um það rætt að allir séu jafnir fyrir lögunum. Því miður er það fjarri sanni eins og meðal annars kemur fram hér að ofan. Einu sinni hélt ég að rétt­læti, sanngirni og heil­brigð skynsemi hlytu að vera markmiðin í upp­kvað­n­ingu dóms en hef komist að því að það er því miður einnig fjarri sanni enda ekkert að finna um það í lögum.

Er bara allt í lagi að lög um meðferð dómstóla á málum séu vilhöll þeim sterka í þjóðfélag­inu og að dómsúr­skurð­ur­inn miðist við allt annað þjóðfélag en er við lýði í dag? Er þá ekki jafn gott að kasta upp um hvor aðilinn vinni málið? Á þeim svið­um sem hafa verið nefnd hér að ofan sýnist mér í fljótu bragði að það gefi skárri nið­ur­stöður þegar á heildina er litið en dómar dómar­anna þegar gætt er réttlætis, sann­girn­is og heil­brigðrar skynsemi.

Höfundur er rekstrarverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×