Þegar mest lét voru fimm börn á gjörgæslu og segir Valtýr að ástandið sé að þokast í rétta átt. Tíu börn voru inniliggjandi í morgun á spítala og eru flest þeirra sögð á batavegi.
Leikskólinn var opnaður á ný í dag en heimild fékkst til þess fyrir helgi eftir umfangsmikla sótthreinsun. Börnin fá nú aðsendan mat frá Skólamat en áður var hann matreiddur á staðnum. 55 börn voru í leikskólanum í dag af þeim 128 sem eru skráð.
Líkt og fram hefur komið var uppruni sýkingarinnar í hakki sem framleitt var hjá Kjarnafæði en rannsókn leiddi í ljós að meðhöndlun þess var ekki fullnægjandi. Matráður leikskólans sagði upp störfum í síðustu viku.