New York Times og Siena-háskólinn, sem þykja með þeim áreiðanlegustu í bransanum, birtu í dag síðustu könnun sína fyrir forsetakosningarnar á þriðjudag. Hún sýnir fylgið í sveifluríkjunum sjö, ríkjunum þar sem niðurstöður kosninganna munu ráðast. Harris bætir örlítið við sig og leiðir í Wisconsin, Nevada, Norður-Karólínu og Georgíu, Trump hefur undanfarið haft örlítið forskot í þeim þremur síðarnefndu.
Fylgið er hins vegar hnífjafnt í Pennsylvaníu og Michigan, hið síðarnefnda hefur verið talið öruggasta sveifluríki Harris, og Trump leiðir með fjórum prósentum í Arizona. Áfram er staðan því hnífjöfn og innan skekkjumarka. Niðurstöðurnar eru settar fram grafískt í fréttinni hér fyrir neðan.
Í Iowa, djúprauðu ríki sem Trump hefur unnið örugglega í síðustu tveimur kosningum, mældist Harris skyndilega með þriggja prósenta forskot í nýrri könnun. Niðurstöðurnar þykja afar merkilegar, þó að þeim sé tekið með fyrirvara. Mögulega lýsi þær víðtækari þróun Harris í vil. Erlingur Erlingsson sagnfræðingur og fyrrverandi diplómati í Bandaríkjunum fór yfir stöðuna á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Hann sagði að allt þar til í gær hafi Trump verið í betri stöðu.
„En svo kom á óvart þessi Iowa-könnun, þar sem Harris stekkur allt í einu fram úr þarna í ríki sem er alls ekki eitt af þessum sveifluríkjum. En ég held að stærra spurningamerkið sé í kringum allar þessar kannanir, eru þær nákvæmar? Þær brugðust náttúrulega eins og frægt er 2016,“ segir Erlingur.
Hann bendir jafnframt á að kannanir 2020 hafi spáð Joe Biden talsvert meira forskoti en kom upp úr kjörkössum en í kosningum fyrir tveimur árum hafi Demókrötum svo verið spáð mun lakara gengi en raunin varð.
„Þannig að nú situr maður og veltir fyrir sér, hvar er skekkjan? Það gæti þýtt að úrslitin muni sveiflast mjög í aðra hverja áttina.“
Æsispennandi lokasprettur er framundan hjá frambjóðendunum. Þau voru bæði í Norður-Karólínu í gær og Harris dúkkaði svo óvænt upp í skemmtiþættinum Saturday Night Live, sem er í beinni frá New York. Repúblikanar risu í kjölfarið upp á afturlappirnar; það að Trump hafi ekki fengið boð í þáttinn segja þeir skýrt brot á jafnræðisreglu um tíma frambjóðenda í sjónvarpi og fjölmiðlum.