Í fréttaskeyti frá hópnum segir að leiðangurinn hafi fengið heitið Climb for Change: Empowering Nepalese and Sherpa Women.
Tilgangur ferðarinnar er að vekja athygli á bágborinni stöðu kvenna í Nepal. Í fréttaskeytinu segir að tækifæri til menntunar séu lítil í landinu og árlega séu mörg þúsund nepalskar konur gefnar eða seldar í mansal.
Fjallgönguna tileinka þær öllum stelpum og konum sem vilja láta drauma sína rætast. Með ferðinni safna þær áheitum fyrir stúlkur í fjallasamfélaginu í Nepal með það að markmiði að þær geti fengið störf sem fjallgönguleiðsögukonur.

„Sherpaþjóðin ásamt fjölda annarra þjóðflokka býr í Kumbu dalnum við rætur hæstu fjalla heims í Himalaya. Ein helsta leið kvenna til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði er að taka þátt í ferðaþjónustu í kringum háfjallamennsku. Hingað til hefur það verið karlaheimur lokaður konum en nú eru fyrstu konurnar af Sherpaætt að komast inn í greinina og ryðja brautina fyrir aðrar konur,“ er haft eftir Soffíu S. Sigurgeirsdóttur, meðlimi í gönguhópnum.
Ásamt Soffíu gengur Lukka Pálsdóttir og hópur nepalskra kvenna. Fram kemur að hópurinn sé kvennaleiðangur að öllu leyti, með þeim gangi kvenkyns leiðsögumenn, burðarkonur og fjallgöngukonur.
Hópurinn náði upp á tind Lobuche East klukkan sjö í gærmorgun. Áheitasöfnunin stendur þó enn yfir, hægt er að lesa nánar um verkefnið og styrkja það hér.