Hann var dæmdur til fjörutíu ára fangelsisvistar þar sem hann hefði þurft að verja fimm innan veggja fangelsis en Paige Whitaker dómari mildaði dóminn svo að sá tími sem rapparinn hefur þegar varið í fangelsi dygði. Young Thug, sem heitir réttu nafni Jeffery Lamar Williams, var þó dæmdur til fimmtán ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar.
Auk þessa setti dómarinn honum ýmisleg skilyrði. Þeirra á meðal eru þau að honum verði ekki heimilt að ferðast til heimaborgar sinnar Atlanta eða eiga í samskiptum við grunaða þátttakendur í skipulagðri glæpastarfsemi þar í borg. Honum verður einnig gert að sinna samfélagsþjónustu.
„Ég tek fulla ábyrgð á glæpum mínum. Ég veit hvað ég hef fram að færa og ég veit hver ég er. Ég veit hve langt ég hef komist og ég er meðvitaður um þau áhrif sem ég hef á fólkið í nærumhverfi mínu,“ sagði Young Thug áður en dómurinn var upp kveðinn samkvæmt NBC.
Jeffery Lamar Williams er 33 ára gamall og hefur setið í fangelsi í heimafylki hans Georgíu síðan í maí ársins 2022. Hann var handtekinn vegna gruns um að plötuumboð hans væri í raun meintu glæpasamtökin Young Slime Life. Meðlimir þeirra eru grunaðir um fjöldann allan af glæpum, þess á meðal morð, sölu á fíkniefnum og bílaþjófnað.
Málið sem hefur lengi vakið athygli sökum frægðar Williams er það sakamál sem lengstan tíma hefur tekið að ná niðurstöðu í í sögu Georgíufylkis.