Í umfjöllun slúðurmiðilsins Page Six kemur fram að Sutton og Griffin hafi verið saman í rúm tíu ár. Hún hafi sótt um skilnað við manninn síðastliðinn þriðjudag en þau giftu sig í október 2014 og eiga saman eitt barn.
Fram kemur að orðrómur um að ekki væri allt á felldu hafi farið á kreik í söngleikjaheiminum þegar Sutton lék í verkinu The Music Man ásamt Jackman. Segir í umfjöllun miðilsins að þó nokkrir heimildarmenn hans segi að þau Jackman og Sutton séu nú ástfangin. Fregnir af því að þau hafi farið að stinga saman nefjum hafi fyrst orðið opinberar í desember í fyrra.
„Þau eru hundrað prósent saman og eru ástfangin og vilja eyða ævinni saman,“ segir ónefndur heimildarmaður í samtali við Page Six. Þá segir hann að þau hafi viljað halda sambandi sínu leyndu. Jackman sótti um skilnað við þáverandi eiginkonu sína Deborru-Lee Furness í september í fyrra en þau höfðu verið gift í 27 ár.