Fundurinn var haldinn í úthverfi Philadelpiu og var Kristi Noem, ríkisstjóri Suður-Dakóta, með Trump á sviði. Eftir að kosningafundurinn hafði staðið yfir í um hálftíma þurfti að gera pásu þegar sjúkraliðar þurftu að hlúa að áhorfenda í salnum.
Skömmu síðar þurfti að stöðva fundinn aftur vegna annars atviks í salnum þar sem hlúa þurfti að áhorfenda.
Þegar hlúa þurfti að fyrsta áhorendanum lét Trump starfsmenn sína spila lagið Ave Maria og í seinna skiptið bað hann um sama lag en í flutning Luciano Pavarotti.
Í frétt New York Times segir að eftir að Noem tilkynnti að búið væri að hlúa að seinni áhorfandanum hafi Trump ætlað að byrja að svara spurningum á nýjan leik en hætt við.
„Ekki fleiri spurningar. Við skulum bara hlusta á tónlist. Gerum þetta að tónverki. Hver í helvítinu vill heyra spurningar?“ spurði Trump.
Við það kallaði hann eftir því að tónlistin yrði spiluð á nýjan leik og þannig væri hægt að binda enda á fundinn og bað hann um að lagið YMCA með Village People yrði spilað.
Það er lag sem Trump spilar iðulega þegar hann lýkur ræðum sínum en þegar laginu lauk virtist Trump hissa.
„Það er enginn að fara. Hvað er að gerast?“
Tónlistin hélt áfram og á meðan stóð Trump áfram á sviðinu og vaggaði sér, í meira en hálftíma, á meðan lög eins og Nothing Compares 2 U, Hallelujah og November Rain voru spiluð.
Á meðan á þessu stóð gengu margir af stuðningsmönnum Trumps úr salnum.
Að endingu gekk aðstoðarmaður Trumps á sviðið og rétti honum blað. Trump skoðaði blaðið um stund, veifaði út í sal og gekk af sviðinu.
Áhugasamir geta horft á kosningafundinn í gær í spilaranum hér að neðan. Hann byrjar þegar Trump lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að svara fleiri spurningum.