Körfubolti

Finnur Freyr í veikinda­leyfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Undir stjórn Finns Freys Stefánssonar hefur Valur tvívegis orðið Íslandsmeistari.
Undir stjórn Finns Freys Stefánssonar hefur Valur tvívegis orðið Íslandsmeistari. vísir/anton

Þjálfari Íslandsmeistara Vals, Finnur Freyr Stefánsson, stýrir liðinu ekki í leiknum gegn Þór Þ. í Bónus deild karla í kvöld vegna veikinda.

Í færslu á Facebook-síðu Vals kemur fram að Finnur verði ekki með Val í leiknum í kvöld og frá í einhvern tíma vegna veikinda.

Jamil Abiad stýrir Valsliðinu í kvöld eins og hann gerði í leiknum gegn Stjörnunni í 1. umferð Bónus deildarinnar á föstudaginn. Finnur var dæmdur í eins leiks bann vegna framkomu sinnar í leiknum gegn Keflavík í Meistarakeppni KKÍ um þarsíðustu helgi. 

Finnur var sendur upp í í stúku þegar hann fékk sína aðra tæknivillu snemma leiks. Eftir leik veittu hvorki hann né leikmenn Vals viðtöl. Valsmenn ku hafa verið ósáttir með að leikurinn færi fram í Blue-höll þeirra Keflvíkinga en ekki á Hlíðarenda, heimavelli Íslandsmeistaranna.

Valur tapaði fyrir Keflavík, 98-88, og einnig fyrir Stjörnunni í síðustu viku, 95-81.

Í samtali við Vísi vildi Finnur ekki tjá sig nánar um málið.

Leikur Vals og Þórs Þ. hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður sýndur beint á rás Bestu deildarinnar. Skiptiborðið, þar sem fylgst verður með öllum leikjunum sem hefjast klukkan 19:15, verður svo á dagskrá Stöðvar 2 Sports.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×