Parton greindi frá þessu á viðburði í Tennessee, þar sem hún sagði að framlagið kæmi frá hennar persónulega bankareikningi. Ein milljón Bandaríkjadala nemur rúmum 135 milljónum króna. Sömu upphæð myndi skemmtigarður hennar, Dollywood, gefa í góðgerðasamtökin Mountain Ways, sem hafa aðstoðað þá sem misstu heimili sín í óveðrinu.
Fellibylurinn Helena, sem reið yfir suðausturhluta Bandaríkjanna í lok september, er sagður einn stærsti fellibylur Karíbahafsins síðustu öldina. Helena olli að minnsta kosti 225 mannsföllum og gríðarmiklu tjóni á innviðum. Fellibylurinn er sá mannskæðasti í landinu frá fellibylnum Katrínu árið 2005.
Eftir að Parton tilkynnti að hún skyldi styrkja málefnið með þessum hætti brast hún í söng og söng lagið Jolene. En í stað þess að syngja „Jolene“ söng hún „Helene“.
Góðverkið er ekki hennar fyrsta sem vekur athygli en árið 2020 gaf hún milljón Bandaríkjadala í þróunarstarfsemi á Covid-bóluefninu Moderna. Þá hét hún því árið 2016 að hún hygðist gefa fjölskyldum sem misstu heimili sín í skógareldum í Tennessee ríki þúsund dali á mánuði.