Í nýjum gögnum sem Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, lagði nýverið fram, kemur fram að Trump og Pence ræddu saman í síma þann 1. janúar 2021, nokkrum dögum fyrir árásina á þinghúsið, sem átti sér stað þann 6. janúar.
Þegar þeir ræddu saman þrýsti Trump mjög á Pence að taka þátt í tilraunum Trumps og bandamanna hans til að snúa úrslitum kosninganna.
Þegar Pence neitaði að reyna að stöðva staðfestingu úrslitanna sagði Trump:
„Þú ert allt of heiðarlegur.“
Eftir símtalið tísti Trump til stuðningsmanna sinna og hvatti þá til að mæta á mótmæli í Washington DC þann 6. janúar.
Smith lagði áðurnefnda greinargerð sem lið í viðleitni hans til að að sækja Trump til saka, þó Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsetar njóti friðhelgi frá dómstólum vegna þess sem þeir gera í starfi.

Smith heldur því fram að Trump hafi framið glæpi sína þegar hann reyndi að snúa úrslitum kosninganna sem frambjóðandi og almennur borgari en ekki forseti Bandaríkjanna.
Greinargerðin byggir á miklu leyti á vitnisburði helstu ráðgjafa Trumps á þessum tíma.
Sjá einnig: Lét sér fátt um finnast að Pence væri í hættu
Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar hefur Pence neitað að styðja Trump í núverandi kosningabaráttu. Þá neita Trump og JD Vance, varaforsetaefni hans, enn að samþykkja það að Trump hafi tapað kosningunum 2020.
Í kappræðum Vance og Tim Walz, varaforsetaefnis Kamölu Harris, á dögunum neitaði Vance að segja hvort hann viðurkenndi að Trump hefði tapað 2020.
„Þess vegna er Mike Pence ekki á þessu sviði lengur,“ sagði Walz þá.