Bandaríski slúðurmiðillinn PageSix greinir frá þessu. Saman eiga þau eina dóttur, hina ellefu ára gömlu Everly. Þau kynntust á setti dansmyndarinnar Step Up sem kom út árið 2006 þar sem þau fóru bæði með aðalhlutverk.
Fram kemur í umfjöllun miðilsins að Dewan hafi sótt um skilnað fyrir sex árum síðan, árið 2018. Þá höfðu þau erið gift í níu ár. Þá tóku við harðar deilur hjónanna um hvernig þau ættu að skipta á milli sín tekjum sínum, þá sérstaklega tekjum Channing Tatum sem hann aflaði sér með Magic Mike myndunum.
Dewan sakaði Tatum þannig um tíma að hafa gengið í sameiginlega sjóði þeirra til þess að fjármagna myndina. Á sama tíma sakaði Tatum hana um að hafa tafið skilnaðarferlið um of. Nú er ljóst að þau hafa náð sáttum um málið.
Þrátt fyrir að skilnaðurinn hafi ekki gengið í gegn fyrr en nú eru þau Tatum og Dewan löngu komin í önnur sambönd. Tatum er nú trúlofaður leikkonunni og leikstjóranum Zoe Kravitz á meðan Dewan trúlofaðist leikaranum og söngvaranum Steve Kazee árið 2020.