Hin búlgarska Maria Magdalena Kolyandrova er gengin í raðir Garðabæjarliðsins og mun stýra leik þess í vetur. Hún leikur sem leikstjórnandi og kemur úr austurrísku deildinni.
Maria Magdalena er víðförul og hefur áður leikið í Danmörku, á Spáni, í Belgíu og Þýskalandi auk Austurríkis.
Stjörnukonur voru nýliðar í Bónus-deildinni á síðustu leiktíð en komu mörgum á óvart með frábærum árangri, þrátt fyrir lágan meðalaldur liðsins. Liðið fór alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins en laut þar í lægra haldi fyrir Keflavík, sem varð Íslandsmeistari.
Menn í Garðabæ hafa haft í nógu að snúast á skrifstofunni en fyrr í dag var tilkynnt um komu tveggja erlendra leikmanna í karlalið félagsins.