Geas er nú þegar að afplána lífstíðarfangelsisdóm og bætist 25 ára dómurinn við þá refsingu. Honum var gefið að sök að berja Bulger ítrekað með lás sem var festur við belti. Árásin átti sér stað þegar Bulger, sem var þá 89 ára gamall, var færður á milli fangelsa í Flórídaríki Bandaríkjanna.
Verjendur Geas héldu því fram að hann hefði ekki notað lásinn heldur hefði hann barið Bulger með hnefunum.
Fyrir dómi kom fram að fangar hefðu fengið fregnir af fyrirhugaðri komu Bulger. Fangi sem bar vitni sagði að Bulger hefði verið kjaftaskúmur og fangarnir hafi þegar í stað ákveðið að drepa hann.
Íslensk kona kom upp um Bulger
Bulger var höfuðpaur í írsku gengi í borginni Boston á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Bandaríska alríkislögreglan hefur haldið því fram að hann hafi verið heimildarmaður þeirra og að hann hafi veitt stofnunni upplýsingar um keppinauta sína. Bulgar neitaði því hins vegar alfarið.
Árið 1994 varð Bulger einn eftirlýstasti maður Bandaríkjanna eftir að hann fékk ábendingu frá tengilið sínum hjá alríkislögreglunni um að hann yrði sóttur til saka. Hann flúði Boston og var á flótta í sextán ár, en það var hin íslenska Anna Björnsdóttir sem kom upp um hann árið 2011.
Sjá nánar: Nágranninn hættulegasti glæpamaður Bandaríkjanna
Anna bjó í næsta húsi við Bulger í Santa Monicu í Kaliforníuríki. Fyrir ábendinguna hlaut hún tvær milljónir Bandaríkjadollara.
Nokkrum dögum áður en Bulger var handtekinn sýndi alríkislögreglan sjónvarpsþátt um hann og kærustu hans Catherine Greig. Anna horfði á þennan þátt, reyndar í Reykjavík, og þá rann upp fyrir henni að líklega væri um nágrannana að ræða. Hún hringdi í alríkislögregluna og fékk ekkert svar, en las skilaboð inn á símsvara.