AP hefur eftir bandarískum embættismönnum að bandamenn Maduro hafi keypt flugvélina ólöglega í gegn um olíufyrirtæki staðsett á Karíbaeyjum í til að ekki kæmist upp um aðkomu Maduro að kaupunum, sem voru gerð í byrjun árs 2023.
Í umfjöllun CNN, sem greindi fyrstur bandarískra miðla frá málinu, segir að flugvélin hafi verið í eigu Maduro og hún hafi kostað þrettán milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 1,8 milljarða króna.
Flugvélinni hafi síðan verið smyglað frá Bandaríkjunum til Venesúela í gegn um Karíbaeyjar í apríl í fyrra.
Flugvélin var skráð í San Marínó en var notuð undir ferðalög Maduro til annarra landa. Þar með talið til Gvæjana og Kúbu fyrr í ár.
Flugvélin var einnig notuð undir fangaskipti í desember í fyrra, þegar yfirvöld í Bandaríkjunum slepptu Alex Saab, fjármálamanni Maduro, í skiptum fyrir tíu Bandaríkjamenn sem höfðu setið í fangelsi í Bandaríkjunum. Þá slepptu venesúelsk yfirvöld Leonard Francis, eða „Feita Leonard“, verktaka sem var sakfelldur árið 2022 fyrir að svíkja fé úr sjóher Bandaríkjanna.
Rúmur mánuður er síðan miklar óeirðir brutust út í Venesúela eftir að endurkjör Maduro var staðfest eftir afar óeðlilegar kosningar. Stjórnarandstaðan sagði kosningarnar meingallaðar og sagði að tölur sem hún hefði frá kjörstöðum bendi til þess að Edmundo González, frambjóðandi hennar, hafi farið með sigur af hólmi.
Þá hafa sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna gagnrýnt kjörstjórn landsins harðlega fyrir að lýsa yfir úrslitum án þess að birta tölur frá hverjum kjörstað. Kosningarnar hafi skort gegnsæi og heilindi.