Þá lýsti fundurinn yfir þungum áhyggjum af risi öfgahægri afla víða um heim.
„Öfgahægrið þrífst á hatri á útlendingum, hinsegin fólki, konum, fötluðu fólki og öðrum jaðarsettum hópum sem hafa sótt sjálfsögð mannréttindi á undanförnum árum. Bakslagið í mannréttindabaráttu er drifið áfram af þjóðernishyggju og fyrirlitningu á fjölbreytileika mannlífsins,“ segir í tilkynningu frá flokknum.

Formaður flokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sagði í ræðu sinni í gær að frjálshyggjan mætti ekki sigra. Hann sagðist ekki enn búinn að ákveða hvort hann ætlaði í framboð til formanns á landsfundi í október en þar kjósa flokksmenn um arftaka Katrínar Jakobsdóttur.
Guðmundur Ingi skaut einnig á samráðherra sinn, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, í ræðu sinni og sagði það ekki í forgangi að breyta útlendingalögum aftur. Það ætti frekar að leggja meiri áherslu á innflytjendamál og að taka vel á móti þeim sem hingað eru komin. Guðrún svaraði þessum orðum í dag og sagðist algjörlega ósammála.