Íslenski boltinn

„Hann var ekki fal­legur drengurinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Gunnlaugsson segir að meiðsli Arons Elís séu ekki alvarleg, þrátt fyrir lýtið framan í honum.
Arnar Gunnlaugsson segir að meiðsli Arons Elís séu ekki alvarleg, þrátt fyrir lýtið framan í honum. Vísir/Samsett

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, segir meiðslin sem Aron Elís Þrándarson varð fyrir í 2-1 sigri liðsins á Flora Tallinn í Sambandsdeild Evrópu í gær ekki vera alvarleg. Þó vissulega líti þau ekki vel út.

Aron Elís kom Víkingum í forystu snemma leiks í gær þegar hann skallaði boltann í markið af stuttu færi. Við það fékk hann spark í andlitið frá leikmanni Flora og þurfti að bera hann af velli. Aron sneri aftur inn á völlinn um fimm mínútum síðar en þurfti svo að víkja um fyrri hálfleikinn miðjan.

Víkingur birti mynd af Aroni á miðlum sínum eftir leik í gær þar sem Aron leit ekki vel út.

„Ég sá hann í morgunmatnum fyrir hálftíma síðan og hann var ekki fallegur drengurinn. Hann var eiginlega heppinn að fá þetta ekki beint í augað á sér,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, við Vísi í morgun.

Meiðslin séu þó ekki alvarleg og eigi ekki að hafa áhrif á spiltíma Arons Elís í næstu leikjum.

„Hann er farinn að bólgna allhressilega en líður vel. Það er ekkert annað og ekkert sem mun aftra honum í næstu leikjum held ég. Það sluppu allir mjög vel. Þeir komu allir óskaddaðir úr þessu,“ segir Arnar.

Það eru góðar fréttir fyrir Víkinga sem hafa verið hrjáðir af meiðslum síðustu vikur. Pablo Punyed og Matthías Vilhjálmsson eru frá og þeir Nikolaj Hansen, Erlingur Agnarsson og Jón Guðni Fjóluson gátu aðeins spilað hluta úr leik í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×