Umfangsmikil eignaspjöll voru unnin á skólanum í gærnótt, rúður brotnar í eldhúsi og smíðastöfu auk annarra skemmdarverka. Mötuneytið, þar sem eldað er bæði fyrir leikskólann og grunnskólann, er í rúst.
Ljúfir drengir
„Þetta eru ekki skemmdaverkamenn eða neitt, þetta eru bara fínir krakkar, ekki ólátabelgir. Þeir eru ljúfir drengir, þetta bara getur gerst,“ segir Vilhjálmur.
Hann telur að krakkarnir hafi bara verið að leika sér, og það hafi ekki verið markmiðið að eyðileggja.
„Þetta eru bara börn. Það er ekki verið að sækjast eftir refsingu fyrir barn á þessum aldri, heldur bara fá þau til að hætta þessari hegðun,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að búið sé að taka viðtal við krakkana um málið, og það verið sent til lögreglustjóra. Lögum samkvæmt verði málið svo fellt niður.
Tuttugu og sjö rúður brotnar
Vilhjálmur segir að um heilmikið tjón sé að ræða, um tuttugu og sjö rúður hafi verið brotnar. „Svo voru rúður brotnar í ofnum og ef þeir eru ónýtir er það dýrt,“ segir hann.
Mötuneytið í grunnskólanum, þar sem eldað er bæði fyrir leikskólann og grunnskólann, er mikið skemmt. Leikskólastarf á að hefjast á morgun, en aðstoðarskólastjóri Húnaskóla, Anna Margrét Sigurðardóttir, segir að verið sé að skoða málin hvernig það verður leyst.
„Þetta verður bara að hafa sinn gang, það er hreinsunarstarf og viðgerðir framundan hjá okkur. Það er bara gott að það sé búið að leysa málið, það gerir okkur rólegri með allt saman,“ segir Anna.