Fangaskiptin áttu sér stað í Ankara í Tyrklandi í dag fimmtudag.
Samningurinn var um 18 mánuði í bígerð, og svo virðist helsta þrætueplið hafi verið krafa Rússlands um morðingjann Vadim Krasikov. Krasikov var í lífstíðarfangelsi í Þýskalandi fyrir að hafa banað uppreisnarmanninum Zelimkhan Khangoshvili, sem var á lista hryðjuverkamanna hjá rússneskum stjórnvöldum.
Krasikov hefur nú verið sleppt úr haldi og er farinn aftur til Rússlands, en þýsk stjórnvöld sögðu að ákvörðunin um að sleppa honum hafi ekki verið tekin af léttúð.
Tölvuþrjótar og morðingjar í skiptum fyrir blaðamenn
Meðal þeirra sem sleppt var úr haldi Rússa var bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich, sem hafði verið í haldi Rússa í 491 dag. Paul Whelan, fyrrverandi sjóliði hafði verið í haldi Rússa í fimm ár, og er einnig frjáls.
Auk Gershkovic og Whelan er Alsa Kurmasheva, rússnesk-bandarískur útvarpsfréttamaður laus úr haldi. Hún var dæmd í sex og hálfs árs fangelsi fyrir að dreifa röngum upplýsingum um rússneska herinn í síðasta mánuði.
Meðal þeirra sem Rússar fengu til baka auk Krasikovs, eru Vadim Konoshchenok, sem sat í fangelsi fyrir vopnasmygl. Hann var handtekinn í Eistlandi þar sem hann var gómaður við að smygla bandarískum vopnum til Rússlands.
Vladislav Klyushin hefur einnig verið sleppt úr haldi. Hann er auðugur viðskiptajöfur, sem sat í fangelsi fyrir tölvuárásir. Roman Valeryevish Seleznev er einnig laus, en hann hafði fengið fjórtán ára fangelsisdóm fyrir umfangsmikla tölvuárás sem hafði margar milljónir dollara af bandarískum bönkum.