Sport

Missir af Ólympíu­leikunum vegna veikinda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jannik Sinner er efsti maður heimslistans í tennis en hann verður ekki með á Ólympíuleikunum í París.
Jannik Sinner er efsti maður heimslistans í tennis en hann verður ekki með á Ólympíuleikunum í París. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Ítalska tennisstjarnan Jannik Sinner hefur ákveðið að keppa ekki á Ólympíuleikunum í París en leikarnir verða settir á föstudaginn. Það er því ljóst að efsti maður heimslistans vinnur ekki gullið í ár.

Hinn 22 ára gamli Sinner greinir frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlum.

„Eftir góða æfingaviku þá fór mér að líða illa. Ég reyndi samt að æfa í nokkra daga en eftir heimsókn til læknis þá komst ég að því að ég væri með hálskirtlabólgu. Læknirinn ráðlagði mér að keppa ekki,“ skrifaði Sinner.

Hann segir að það séu mikil vonbrigði að missa af Ólympíuleikunum sem voru eitt af aðalmarkmiðum hans á árinu. Hann óskaði kollegum sínum góðs gengis og endaði á því að skrifa „Forza Italia“ eða „Áfram Ítalía“.

Sinner þótti líklegur til afreka á Ólympíuleikunum ásamt mönnum eins og þeim Carlos Alcaraz, Novak Djokovic og Casper Ruud.

Í byrjun ársins 2023 þá sat Sinner í fimmtánda sæti heimslistans en hann endaði árið í fjórða sæti. Eftir Roland-Garros mótið í júní þá komst Sinner síðan upp í efsta sæti heimslistans og getur því með réttu kallað sig besta tennismann heims um þessar mundir.

Sinner vann Medvedev í úrslitaleiknum á Opna ástralska risamótinu í janúar og hefur síðan unnið mót í Rotterdam (ATP 500), Miami (Masters) og Halle (ATP 500).

Það eru bara Alcaraz (tvisvar), Stefanos Tsitsipas og Daniil Medvedev sem hafa náð að vinna Ítalann á árinu 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×