Sonya Massey, 36 ára, hringdi sjálf í neyðarnúmerið 911 í byrjun júlí til að tilkynna um mögulegt innbrot. Lögregla svaraði útkallinu og mætti á heimili hennar í Springfield, um 320 km suður af Chicago.
Lögreglumennirnir fylgdu Massey inn á heimili hennar, þar sem hún leitaði að skilríkjum. Lögreglumaðurinn Sean Grayson varð þá var við að það var pottur með sjóðandi vatni á eldavélinni og gaf Massey ábendingu um að slökkva undir.
„Við viljum ekki eldsvoða á meðan við erum hérna,“ segir einn lögreglumannanna og virðist hlæja með Massey.
Massey tekur pottinn og segir tvisvar: „Ég átel þig í nafni Jesús.“ Grayson virðist upplifa að honum sé ógnað, þrátt fyrir að Massey standi nokkuð langt frá honum. Hótar hann að skjóta Massey í andlitið og hrópar á hana að sleppa pottinum.
Massey biðst afsökunar en á erfitt með að losa sig við pottinn og reynir að skýla sér á bakvið eldhúsinnréttinguna. Grayson bregst við því með því að skjóta á hana.
Hann segir síðar að það sé ekki þörf á að kalla á aðstoð þar sem hann hafi hæft Massey beint í höfuðið.
Grayson hefur verið ákærður fyrir morð og brot í starfi.
Þá hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmt atvikið.
„Dauðsfall Sonyu af völdum lögreglumanns í útkalli er áminning um að alltof oft þurfa svartir Bandaríkjamenn að óttast um öryggi sitt á hátt sem við hin þurfum ekki,“ sagði Biden.