Í áliti dómstólsins, sem er æðsti dómstóll Sameinuðu þjóðanna, var sjónum beint að landtökubyggðum Ísraela á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem, innlimun Palestínu í Ísrael og lagasetningu sem mismunar Palestínumönnum.
Álitið mun lítil áhrif hafa
Álit dómstólsins, sem mun koma til með að hafa meiri áhrif á sýn heimsins á Ísrael en framferði Ísraela, var samið af fimmtán dómurum hvaðanæva að úr heiminum. Forseti dómstólsins, Nawaf Salam frá Líbanon, las álitið upp í höfuðstöðvum dómstólsins í dag.
Í álitinu segir meðal annars að flutningar landtökumanna Ísraela á Vesturbakkann og til Jerúsalem og stöðug viðvera þeirra þar sé brot á Genfarsáttmálanum. Þá segir að notkun Ísraela á náttúruauðlindum væri ekki í samræmi við skyldur landsins sem ráðandi afl á stríðshrjáðu svæði.
Ísrael sendi ekki lögfræðinga
Í frétt AP um málið segir að Ísraelar, sem hafi löngum gefið lítið fyrir alþjóðadómstóla og sagt ósanngjarna og hlutdræga, hafi ekki sent fulltrúa þegar málið var tekið fyrir af dómstólnum. Þeir hafi þó skilað greinargerð, þar sem komi meðal annars fram að þeir telji spurningar, sem dómurinn var beðinn um að gefa álit á, hafi verið leiðandi og tækju ekki tillit til öryggis Ísraels.
Þá hafi ísraelskir embættismenn sagt að inngrip dómstólsins gæti grafið undan friðarviðræðum undir botni Miðjarðarhafs, sem hafi verið í ládeyðu síðastliðinn áratug.