Íslenska liðið átti í miklum vandræðum í sókninni í dag, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem það skoraði aðeins 27 stig. Skotnýting Íslendinga var 46,9 prósent og þeir töpuðu boltanum tuttugu sinnum.
Slóvenar leiddu allan tímann og náðu mest 37 stiga forskoti. Á endanum munaði þrjátíu stigum á liðunum, 68-98.
Almar Orri Atlason var stigahæstur í íslenska liðinu með fjórtán stig. Ágúst Kjartansson, Tómas Valur Þrastarson, Elías Bjarki Pálsson og Friðrik Leó Curtis skoruðu tíu stig hver.
Þrátt fyrir tapið í dag er íslenska liðið komið í sextán liða úrslit mótsins en enn liggur ekki fyrir hver mótherjinn á miðvikudaginn verður.