Tölur Clark í leiknum hafa hvorki sést í sögu WNBA deildarinnar eða í lengri sögu NBA deildarinnar.
Clark varð fyrst til að vera með að lágmarki 29 stig, þrettán stoðsendingar, fimm fráköst, fimm þrista, fimm stolna bolta og þrjú varin skot í einum og sama leiknum.
NBA deildin byrjaði að skrá stolna bolta og varin skot á 1973-74 tímabilinu og því nær þetta ekki lengur aftur en það. Meira en fimmtíu ár eru samt dágóður tími.
Þessu náði nýliðinn en það dugði þó ekki til sigurs því lið hennar Indiana Fever tapaði 89-84 á móti Washington Mystics.
Vinsældir Clark eru gríðarlegar í Bandaríkjunum og jafnan frábær mæting á hennar leiki þar sem miðaverð rýkur upp. Áhorfsmet hafa fallið hjá öllum stöðvum sem hafa sýnt leiki með Indiana Fever og mótherjar hafa fært leikina við lið Clark í stærri íþróttahallir.
Gengi liðsins er upp og ofan sem sumir hafa nýtt sér til að ná höggstað á þessum unga leikmanni. Það efast þó enginn lengur um það að hún geti ekki verið stjörnuleikmaður í deildinni það sannar hún í hverjum leik.