„Frammistaðan á löngum köflum bara flott hjá FH-liðinu og við pressuðum þær á réttu stöðunum og gáfum þeim hörku leik, en mörk breyta leikjum og allt það. Þær eru með einstaklingsgæði og nýttu sér klaufagang hjá okkur þegar við vorum ekki vel vakandi á ákveðnum augnablikum þegar við fengum á okkur þessi mörk. Það er eins og það er,“ sagði Guðni.
FH hóf leikinn illa og fékk dauðafæri á sig eftir um tvær mínútur og var svo lent undir eftir aðeins rúmlega fjórar mínútur.
„Við fáum mark á okkur eftir fjórar mínútur. Það er aldrei gott að leikurinn sé varla hafinn og þú ert strax byrjaður að elta andstæðinginn í markasöfnun. Það má vel vera að spennustigið hafi verið hátt eða eitthvað slíkt en þá fannst mér við bara vinna okkur vel inn í þennan leik og síst slakari aðilinn í þessum fyrri hálfleik, það er mitt mat.“
FH-konur hófu síðari hálfleikinn vel og voru ógnandi. En hvað sagði Guðni við sína leikmenn í hálfleik?
„Við fórum bara yfir hlutina og héldum áfram að berja vonarneista í þær. Þær komu að krafti inn í seinni hálfleikinn, fáum þetta annað mark sem var mikið högg, þetta víti. En mistökin í tengslum við það atriði er strax í byrjun þegar að við fáum á okkur aukaspyrnu hér á miðjulínu sirka, þar gleyma leikmenn sér og dekka vitlaust og þær komast auðveldlega í gegnum okkur. Þar byrjaði þetta. Það er svona það sem ég á við um einstaklingsmistök sem gera það að verkum að við lendum í þessari stöðu, fáum á okkur víti.“
FH skoraði úr lokasnertingu leiksins þegar Ída María Hermannsdóttir þrumaði boltanum upp í vinkilinn af um 25 metrum. FH hefði þó mögulega getað skorað fyrr ef ekki hefði verið fyrir landsliðsmarkvörðinn Fanneyju Ingu Birkisdóttur.
„Fanney varði nokkrum sinnum í seinni hálfleik þegar við komumst í gegnum þær á kantsvæðunum. Þar gerði hún vel og varði og hélt markinu hreinu þar til í lokinn þar sem við skorum virkilega fallegt mark, en að mínu mati áttum við það mark fyllilega skilið miðað við það sem við sýndum í dag,“ sagði Guðni að lokum.