Í gær greindum við frá því að sykurmagn í Pepsí hafi minnkað og sætuefni á borð við asesúlfam og súkralósa sett í staðinn, íslenskum neytendum til mismikillar gleði.
Töluverð umræða hefur skapast um þetta hitamál á Facebook hópnum Nammitips þar sem breytingin fellur vægast sagt í grýttan jarðveg.
Grunaði ekkert
Enginn er þó líklega ósáttari en Óttar, pepsíunnandi til margra ára. Hann vill sitt Pepsí sykrað enda þeirrar skoðunar að sætuefnin séu skaðlegri en sykurinn.
„Mér líst afleitlega á þetta vegna þess að ég tel að mér hafi verið byrlað, þetta eitur held ég að þetta sé, núna í fjórtán eða fimmtán mánuði. Mig grunaði ekki neitt.“
Hann segir að vissulega standi í innihaldslýsingunni að í drykknum séu sætuefni en hefði viljað að breytingin hefði verið betur auglýst, enda hafi margir verið grunlausir um hana.
„Ég myndi vilja að það væri alvarleg, greinileg aðvörun á svona umbúðum því að maður les ekki innihaldslýsingar í hvert einasta sinn sem maður kaupir vöruna. En ég er allavegana hættur að drekka pepsí, algjörlega. Í bili. Það er búið að eitra mig að innan með þessum óþverra í tólf til fjórtán mánuði, lítri á dag. Ég veit ekki hvort ég ber þess bætur.“
Í svörum Ölgerðarinnar til Vísis kemur fram að fyrst hafi sykurmagnið í drykknum verið minnkað í febrúar í fyrra og var breytingin gerð í samræmi við stefnu PepsiCo og auknar kröfur neytenda um minna sykurmagn.

Næringarfræðingur segir alþekkt að sykur sé óhollur en sætuefnin séu ekki skárri.
„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er meira að segja búin að tala á móti sætuefnum. Segir að þetta sé ekki lausn til að halda kjörþyngd, ekki leið til að halda heilsu, getur jafnvel ýtt undir hjarta- og æðasjúkdóma. Og svo eru rannsóknir sem vísa í að þetta geti skemmt góðu þarmaflóruna okkar sem er svona varnarveggurinn okkar og ónæmiskerfið,“ segir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur.
Velur sykur fram yfir sætuefnin
Hann segir íslenska vatnið best en af tveinnu illu myndi hann sjálfur frekar drekka sykraða gosdrykki en drykki sem innihalda sætuefni.
„Allan daginn myndi ég frekar bara vera í sykrinum sem líkaminn þekkir.“