Það var á þriðja tímanum í nótt að strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út en það reyndist mikið happ að skipstjóri annars strandveiðibáts á svæðinum kom manninum til bjargar. Í ljós kom að þeir höfðu þekkst í yfir fjóra áratugi.
Arnar Magnússon strandveiðisjómaður sem kom skipverja bátsins til bjargar í nótt lýsti aðstæðum í viðtali við fréttastofu í dag. Þegar hann áttaði sig á því að það sem hann sá í sjónum var ekki gámur heldur bátur. Svo sting sem hann fékk í hjartað þegar hann sá að þetta var bátur vinar hans.
Arnar sagði fullkomlega ljóst að fraktskipið hefði siglt á fiskibátinn. Myndir af skemmdum á fiskibátnum og á fraktskipinu benda til þess.
Fraktskipið heitir Longdawn og var skiptstjóri þess handtekinn í dag ásamt tveimur stýrimönnum. Skipið var á leiðinni til Rotterdam en var siglt til Vestmannaeyja þar sem skýrslutökur hafa staðið yfir í kvöld.
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir skýrslutökum að ljúka. Skipstjórinn og annar stýrimaðurinn verði í haldi til morguns hið minnsta. Þá skýrist hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Skipið verði áfram í höfn.
Karl Gauti segir málsatvik vera að skýrast án þess að geta farið út í þau í smáatriðum. Þá sé augljóst að lukkan hafi verið í liði með sjómanninum að hafa komist lífs af í sjónum í nótt.
Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem Arnar var með skýr skilaboð til annarra strandveiðisjómanna.