Í ár sendi Ísland Heru Björk í Eurovision, en hún hafði einnig tekið þátt árið 2010 með laginu Je Ne Sais Quoi. Þá komst hún áfram á úrslitakvöldið og hafnaði í 19. sæti keppninnar með 41 stig.
Lag hennar í ár, Scared of Heights, féll ekki í kramið hjá Evrópu og komst ekki áfram úr fyrra undankvöldi keppninnar. Fimmtán þjóðir kepptust þá um að komast áfram en fimm sátu eftir með sárt ennið.
Í kvöld, eftir að úrslitakvöldinu lauk þar sem hinn svissneski Nemo vann með laginu The Code, voru niðurstöður undankvöldanna birtar. Þar kemur fram að Hera hafi einungis fengið þrjú stig, minnst allra í keppninni.

Athygli vekur að sigurframlag Sviss lenti í fjórða sæti á sínu undankvöldi með 132 stig. Á undan voru Ísraelar með 194 stig sem enduðu svo í fimmta sæti á úrslitakvöldinu, Hollendingar með 182 stig sem voru dæmdir úr leik og Armenar með 137 stig sem enduðu í áttunda sæti á úrslitakvöldinu.
Rétt fyrir ofan Heru var framlag Aserbadsíjan, sem keppti á sama undankvöldi, með ellefu stig. Þar næst koma fjögur atriði sem kepptu á seinna undankvöldi keppninnar, Malta, Albanía, San Marínó og Belgía með þrettán, fjórtán, sextán og átján stig á haus.
Þetta er í fjórða sinn sem framlag Íslands endar í síðasta sæti keppninnar. Það gerðist einnig árin 1989 þegar Daníel Ágúst flutti lagið Það sem enginn sér, árið 2001 þegar Two Tricky fluttu lagið Angel og árið 2018 þegar Ari Ólafsson söng lagið Our Choice.
Ekki er búið að tilkynna frá hvaða þjóðum stigin þrjú sem Hera fékk komu.