Greint er frá því á vef breska ríkisútvarpsins að baulað hafi verið á Eden Golan á meðan hún söng lagið Hurricane, framlag Ísrael í Eurovision þetta árið. Í yfirlýsingu segist Golan stolt af því að stíga á sviðið í Malmö fyrir hönd lands síns.
Ísraelska ríkisútvarpið hefur kvartað til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, vegna baulsins og farið fram á að sambandið komi í veg fyrir að slíkt gerist á keppninni í kvöld.
Þá hafa fjölmenn mótmæli farið fram í miðborg Malmö í dag vegna framgöngu Ísraela á Gasasvæðinu. Mótmælendur báru margir palestínska fánann og skilti sem á stóð: Sniðgangið Ísrael.
Öryggisgæsla hefur verið efld í sænsku borginni, sér í lagi við Eurovision höllina enda gert ráð fyrir að mótmælt verði við hana meðan á keppni stendur.
EBU tók ákvörðun um það í janúar að Ísrael yrði ekki meinuð þátttaka í söngvakeppninni. Kallað hafði verið eftir því úr ýmsum áttum að Ísraelum yrði meinuð þátttaka, á sama grundvelli og Rússum eftir innrás þeirra í Úkraínu fyrir tveimur árum.