Níu þúsund dalir samsvara tæplega 1,3 milljónum króna.
Umrætt dómsmál er eitt af fjórum dómsmálum gegn Trump og snýr í stuttu máli sagt að því þegar Cohen greiddi Daniels 130 þúsund dali skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016. Greiðslunni var ætlað að koma í veg fyrir að Daniels segði frá meintu framhjáhaldi Trumps með henni á árum áður.
Trump endurgreiddi Cohen en þær greiðslur voru skráðar í bókhald forsetans fyrrverandi sem lögfræðikostnaður og er hann sakaður um að hafa falsað skjöl í 34 liðum. Verði hann dæmdur sekur gæti hann verið dæmdur til allt að fjögurra ára fangelsisvistar.
Juan M. Merchan, dómarinn í málinu, múlbatt Trump fyrst í mars og herti úrskurð sinn í upphafi apríl. Upprunalega bannaði dómarinn Trump að tjá sig um vitni, kviðdómendur og aðra sem tengjast réttarhöldunum en bætti svo dóttur sinni við listann, þar sem Trump hafði farið með falskar yfirlýsingar um hana á Truth Social.
Síðan þá hefur Trump ítrekað látið reyna á múlinn, meðal annars með því að kalla vitni í málinu gegn sér „drulludela“.
Merchan vísaði í dag til níu færslna á samfélagsmiðli Trumps, Truth Social, sem hann segir brjóta gegn þagnarskyldunni og skipaði hann forsetanum fyrrverandi að fjarlægja þær.
Saksóknarar hafa bent Merchan á fjölda færslna sem þeir segja að fari gegn þagnarskyldunni og hafa þeir haldið því fram að ítrekuð brot Trumps ógni réttarhöldunum. Þeir bentu á fjórar nýjar færslur í morgun, en samkvæmt frétt New York Times á að taka þær fyrir í dag.
Framboð Trumps hefur þegar sent út fjáröflunarpóst þar sem talað er um úrskurðinn í morgun.
„Demókratadómari úrskurðaði gegn mér,“ segir í titli póstsins, samkvæmt AP fréttaveitunni. Þá stendur þar að „Demókratadómari“ hafi sagt Trump vanvirða réttinn og markmiðið sé að þagga niður í honum.
„Standið með Trump,“ segir þar einnig og er fólk beðið um að senda forsetanum fyrrverandi peninga.