Sienna Martin, sem spilaði ekkert þegar KR tryggði sér oddaleik síðast þegar liðin mættust, átti stórleik í kvöld. Skoraði hún 24 stig, tók 4 fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Segja má að hún hafi lagt grunninn – og byggt húsið – að sigri kvöldsins.
Gestirnir úr vesturbæ Reykjavíkur mættu tilbúnir til leiks en Aþena tók öll völd í 2. og 3. leikhluta. Gerðu heimakonur út um leikinn á þeim kafla og unnu tólf stiga sigur sem skilar þeim í úrslitaeinvígi við Tindastól um sæti i Subway-deild kvenna að ári.
Barbara Zieniewska var næst stigahæst í liði Aþenu með 17 stig, 9 fráköst og tvær stoðsendingar. Rebekka Rut Steingrímsdóttir var stigahæst í liði KR með 16 stig ásamt því að taka 6 fráköst og gefa eina stoðsendingu. Michaela Porter kom þar á eftir með 15 stig, 16 fráköst og tvær stoðsendingar.