Körfubolti

Leggur skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Í leik með Detroit Pistons.
Í leik með Detroit Pistons. Thearon W. Henderson/Getty Images

Kraftframherjinn Blake Griffin hefur ákveðið að leggja körfuboltaskóna á hilluna. Hann lék með Boston Celtics á síðustu leiktíð en hefur verið án liðs síðan síðasta sumar. 

Griffin hefur nú ákveðið að kalla þetta gott. Staðfesti hann að skórnir væru farnir upp í hillu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Hinn 35 ára gamli Griffin var á sínum yngri árum með skemmtilegri kraftframherjum NBA-deildarinnar. Hann vakti reglulega athygli fyrir magnaðar troðslur sínar og varð til að mynda troðslukóngur deildarinnar á sínu fyrsta tímabili. Sama tímabil var hann valinn nýlið ársins.

Hann lék með Los Angeles Clippers meirihluta ferils síns eða frá 2009 til 2018. Þaðan fór hann til Detroit Pistons, Brooklyn Nets og loks Boston.

Á ferli sínum í NBA-deildinni skoraði Griffin að meðaltali 19 stig í leik, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Þá var hann 6 sinnum hluti af stjörnuleik NBA-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×