Víkingar voru á meðal þeirra liða sem reyndu að fá Gylfa Þór Sigurðsson í sínar raðir í vetur en Gylfi skrifaði undir samning hjá Val og gæti því mætt Víkingum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30, á Víkingsvelli.
„Vonandi spilar kappinn [Gylfi] í kvöld því ég held að allir bíði þess með óþreyju að fá að sjá hann spila alvöru leik á Íslandi. Það væri sterkt að fá að mæta honum í kvöld, og fyrir okkar stráka að mæla sig gagnvart honum,“ segir Arnar í samtali við íþróttadeild.
„Æstir í að vinna þennan titil“
Víkingar unnu báða stóru titlana á síðustu leiktíð en til þess að Meistarakeppnin geti farið fram þá mæta þeir liðinu sem varð í 2. sæti Bestu deildarinnar í fyrra, Val.
„Við erum fullir eftirvæntingar að hefja tímabilið. Það er búið að ganga á ýmsu en við erum að koma vel undan vetri. Hvað deildina varðar eru líka mörg lið búin að styrkja sig mikið, og vonandi gefur leikurinn í kvöld forsmekkinn að því sem koma skal,“ segir Arnar sem tekur leikinn í kvöld alvarlega:
„Já, mjög svo. Það er verið að berjast um titil og þetta bæði setur endapunktinn á veturinn og gefur tóninn fyrir sumarið. Við töpuðum í fyrra á móti Blikum í þessum sama leik þannig að við erum æstir í að vinna þennan titil í kvöld.“
Kæru Víkingar. Hamingjan býður ykkur öll hjartanlega velkomin á leik Víkings og Vals. Í kvöld verða Meistarar Meistaranna krýndir og við viljum sjá þig í stúkunni.
— Víkingur (@vikingurfc) April 1, 2024
Hjaltested borgararnir verða á sínum stað. Ekkert aprílgabb þar á ferð.
Sjáumst í Hamingjunni í kvöld. pic.twitter.com/txv5yY525I
Ný leiktíð í Bestu deildinni hefst svo um helgina þar sem Víkingar spila fyrsta leik mótsins, gegn Stjörnunni, í Fossvoginum á laugardagskvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.