Íslenski boltinn

Væri ekkert vesen ef rétt væri staðið að hlutunum

Aron Guðmundsson skrifar
Magnús Valur Böðvarsson stendur í ströngu þessa dagana í starfi sínu sem vallarstjóri KR. Mánuður er til stefnu þar til flautað verður til leiks í Bestu deild karla.
Magnús Valur Böðvarsson stendur í ströngu þessa dagana í starfi sínu sem vallarstjóri KR. Mánuður er til stefnu þar til flautað verður til leiks í Bestu deild karla. Vísir

Vallar­stjóri KR á Meistara­völlum, Magnús Valur Böðvars­son, fylgist náið með lang­tíma veður­spánni og vonar að mars­hretið haldi sig fjarri Vestur­bænum. Það styttist í að flautað verði til leiks í Bestu deild karla og er Magnús þokka­lega bjart­sýnn á að heima­völlur KR verði leik­fær fyrir fyrsta heima­leik liðsins.

„Núna er þetta allt í lagi. Lítur ekkert hræði­lega út eins og var raunin í fimm­tán gráðu frosti í fyrra á þessum tíma,“ segir Magnús Valur, vallar­stjóri Meistara­vallar hjá KR, um stöðuna á vellinum núna mánuði fyrir upp­hafs­flautið í Bestu deild karla. „Það er smá ó­vissa ríkjandi í kringum það hvernig veðrið verður fram að fyrsta leik. Það mun hafa mikið að segja.“

Við höfum ekkert gert fyrir fót­bolta­vellina okkar. Gras­vellirnir hafa ekki verið byggðir upp eftir nú­tíma­stöðlum. Þetta væri ekkert vesen ef við værum með rétt upp­byggða velli og undir­hita undir völlunum. Þá værum við ekki einu sinni í þessari um­ræðu.

Magnús Valur

Starf þitt sem vallar­stjóri KR á þessum tíma­punkti. Ertu vakinn og sofinn yfir veður­spám þessa dagana? Er maður kvíðinn fyrir mögu­legu hreti?

„Ég get alla­vegana sagt þér það að ég er búinn að vera fylgjast með veður­spánni til lengri tíma núna og kíki alltaf um leið langt fram í tímann. Eins og staðan er núna þá lítur ekki út fyrir að við séum að fara fá eins mikið frost og í fyrra á þessum tíma. Sá vetur var hörmu­legur.

Veður­spáin fram undan lítur tölu­vert betur út en í fyrra. Ég hef því ekki eins miklar á­hyggjur af því að það muni deyja eins mikið af grasi eins og gerðist á síðasta ári.“

Þokkalega bjartsýnn

En hver er raun­veru­leg staða Meistara­valla núna, innan við mánuði þar til flautað verður til leiks í Bestu deild karla? Hún er nokkuð góð að mati Magnúsar og stað­reyndin er sú að KR á ekki fyrsta heima­leik í deildinni fyrr en 20.apríl í þriðju um­ferð.

Verður völlurinn klár fyrir fyrsta heima­leik?

„Ég vona það já og er þokka­lega bjart­sýnn fyrir því. Næsta verk hér er að koma ein­hverjum dúk yfir völlinn til þess að reyna mynda hita á honum. Hann gæti orðið leik­fær í kringum 20. apríl. “

Dúk á völlinn segir Magnús en er hægt að grípa til ein­hverra aðra töfra­lausna til þess að hjálpa vellinum að ná sér fyrr?

„Nei, í raun og veru ekki núna á þessum tíma­punkti. Sér í lagi þar sem að þessi völlur, sem og gras­vellir á heildina litið á Ís­landi eru ekki með undir­hita. Nema já hybrid-æfinga­völlurinn sem FH er að prófa.“

Hybrid heillar

„Hybrid æfinga­völlurinn hjá FH yrði leik­hæfur um þetta leiti sem við erum að tala um en hvað keppnis­völl liðsins í Kapla­krika varðar, sem er eins og Meistara­vellir gras­völlur án undir­hita, er kannski ekki sömu sögu að segja. Við sem erum að sjá um þessa gras­velli erum meira í því að leggja traust okkar og vonir á gott veður­far.“

Svona hybrid völlur eins og er verið að prufu­keyra í Kapla­krika. Þannig völlur hlýtur að vera draumur vallar­stjórans eða hvað?

„Já, að sjálf­sögðu. Ég er náttúru­lega búinn að tala fyrir þessu í að verða tíu ár núna. Við höfum ekkert gert fyrir fót­bolta­vellina okkar. Gras­vellirnir hafa ekki verið byggðir upp eftir nú­tíma­stöðlum. Þetta væri ekkert vesen ef við værum með rétt upp­byggða velli og undir­hita undir völlunum. Þá værum við ekki einu sinni í þessari um­ræðu.“

Þú værir tölu­vert ró­legri yfir stöðunni ef það væri upp­hitaður hybrid völlur hér í Vestur­bænum?

„Já, auð­vitað væri maður alltaf ró­legri. Þá myndi maður vita það fyrir víst að það yrði alltaf hægt að spila hér. Versta sem getur gerst fyrir okkur er að geta ekki spilað heima­leiki á heima­vellinum okkar. Að sjálf­sögðu reyni ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hlutirnir verði í lagi.“

Jákvæður andi í kringum KR

Í að­draganda þessa tíma­bils er ekki laust við að maður skynji já­kvæðni í kringum KR og vott af spennu fyrir komandi mánuðum. Karla­liðið er að halda inn í tíma­bilið með nýja þjálfara eftir að Gregg Ryder var ráðinn inn í stað Rúnars Kristins­sonar.

Veskið hefur verið opnað og spennandi leik­menn verið fengnir inn og bendir allt til þess að KR-ingar séu ekki hættir á leik­manna­markaðnum.

Þessi stemning og spenna í kringum liðið núna. Eykur það pressuna á vallar­stjórann að hafa allt í topp­standi hvað völlinn varðar?

„Að sjálf­sögðu viljum við að allt sé alltaf í topp­standi. Andinn í kringum fé­lagið núna er búinn að vera mjög já­kvæður og það er búið að vera rosa­lega gaman að sjá alla brosandi og já­kvæða fyrir hlutunum. Menn eru að sjá bjarta tíma fram undan og vonandi fer eitt­hvað að gerast í vallar­málum hjá fé­laginu og ekki bara hér heldur á Ís­landi í heild sinni.

Við viljum spila á grasi. Fót­bolti er spilaður á grasi eins og ég hef sagt oft áður. Ég held að við heltumst úr lestinni ef við færum okkur að öllu leiti yfir í plast­vellina.“

Ryðst ekki inn á skrifstofu framkvæmdastjórans

En þú sem vallar­stjóri. Horfandi upp á nýja leik­menn koma hingað í Vestur­bæinn, fé­lagið að rífa upp veskið. Ertu strax mættur á skrif­stofuna hjá fram­kvæmda­stjóranum eða for­manninum að biðja um meiri pening í vallar­málin?

„Nei, nei. Ég veit alveg hvernig staðan er. Auð­vitað er maður alltaf að reyna fá eitt­hvað nýtt inn, eitt­hvað sem getur hjálpað manni í manns starfi. Það er líka undir öðrum aðilum komið að þetta sé í lagi. Reykja­víkur­borg er til að mynda ekki að setja mikinn pening í vallar­mál í Reykja­vík, það er betur staðið að þeim málum í sveitar­fé­lögum á borð við Kópa­vog og Hafnar­fjörð. Maður verður bara að vinna með það sem maður hefur úr að moða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×