Eldurinn braust út rétt fyrir kvöldmat í Campanar-hverfinu í norðvesturhluta Valencia. Vitni lýsa því að logarnir hafi breitt ógnarhratt úr sér; húsið hafi orðið alelda á fáeinum mínútum. Einhverjir komust út af sjálfsdáðum en mörgum var bjargað af svölum. Erla María Huttunen, íslenskur kennari sem búsettur er í Valencia, segir borgarbúa í áfalli.
„Fólk er bara í sjokki, það býst enginn við svona svakalegu. Ég held að sjokkið sé líka yfir því hvað eldurinn breiddist hratt út og hvernig allt gerðist rosalega hratt. Það koma upp eldar af og til en ekki svona gríðarlega stórir. Og þetta er bara versti eldsvoði í sögu Valencia.“
Viðtal við Erlu Maríu í kvöldfréttum Stöðvar 2 má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.
Á meðal þeirra sem misstu heimili sitt í eldsvoðanum er fjölskylda sem Erla kannast við; börnin eru nemendur í skólanum sem hún kennir í og bekkjarfélagar dætra hennar. Yngri strákurinn var veikur heima þegar eldurinn braust út.
„Ég held það hafi einmitt verið mamma hans sem var heima með honum og þau sjá að þetta er allt að gerast. Þau grípa blautt handklæði og hlaupa út, gátu ekki tekið neitt með sér af því að þetta gerðist svo rosalega hratt.“
Sá eldri mætti í skólann í dag og var furðu brattur, að sögn Erlu.
„Ein bekkjarsystirin var að grátandi og hann segir: Vertu ekkert að gráta, það var nú ég sem lenti í þessu!“
Óttast er að eldfim klæðning utan á húsinu hafi stuðlað að hraðri útbreiðslu eldsins, sem minnir um margt á hinn hryllilega Grenfell-bruna í London árið 2017. Þá var einnig mjög hvasst í Valencia í gær, sem gæti hafa spilað inn í. Þriggja daga sorgartímabili hefur verið lýst yfir í borginni.
„Fótboltaleikjum hefur verið aflýst tímabundið, æfingum líka. Dóttir mín átti að fara á fótboltaleik núna en honum var aflýst. Það er mikil sorg. Maður eiginlega áttar sig ekki á því að svona hlutir geti gerst við hliðina á manni.“