Allt tiltækt slökkvilið var kallað út í gærkvöldi og bakvakt sömuleiðis til að manna allar stöðvar. Nokkuð ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið á húsinu, bæði smurverkstæðinu sjálfu sem brann en einnig nærliggjandi fyrirtækjum.
„Ég fékk hringingu frá starfsmönnum og var svolítið lengi að meðtaka hvað var að gerast en um leið og ég sá myndir þá rauk ég niðureftir. Þá fékk ég þær upplýsingar að það átti eftir að loka einni hurð inni í Curvy, sem er eldvarnarhurð, og mér fannst mjög mikilvægt að ná að loka henni til að fá ekki lyktina yfir. Ég fékk leyfi til að hlaupa inn og þá fann ég að það var komin svolítil lykt. En það var enginn reykur og ég náði að loka henni, og hljóp út. Stuttu síðar blossar upp svaka eldur. Manni leið ekki vel,“ segir Hólmfríður Guðmundsdóttir, eigandi verslananna Curvy og Stout.

„Við vorum hérna heillengi að fylgjast með og maður er bara svolítið hjálparlaus. Maður getur ekkert gert. Maður fór svo bara heim og fylgdist með þar. Ég kom aftur seinna um kvöldið og var að vonast til að fá að komast inn en þá var ekki búið að tryggja öryggi á vettvangi, þannig að okkur var vísað í burtu. Svo tók við hálfsvefnlaus nótt.“
Curvy er í húsinu við hliðiná því sem brann en Stout beint fyrir neðan. Megn reyklykt var inni í verslun Stout í morgun þegar fréttastofu bar að garði og mikið vatn á gólfum eftir slökkvistarf gærdagsins. Hólmfríður segir eldinn mikið sjokk.
„Sérstaklega af því að Stout er nýtt fyrirtæki, sem við erum að byggja upp. Þegar heil búð verður ónýt á einum degi er það mjög mikið áfall.“
Tæknideild lögrglu var við störf á vettvangi í morgun og tryggingamatsmenn sömuleiðis.
Hvernig líður þér í dag að horfa á brunarústirnar?
„Bara dofin held ég, veit ekki alveg hvernig mér á að líða. Svo verður maður bara að halda áfram, það er ekkert annað í boði held ég,“ segir Hólmfríður.
„Það er eitthvað vatnstjón, við vitum samt ekki alveg nákvæmlega hversu mikið. Tjónið getur hlaupið á tugum milljóna hugsa ég.“