Liðin eru 79 ár síðan sovéskir hermenn frelsuðu gyðinga úr útrýmingarbúðum nasista þann 27. janúar 1945. Þúsundir manna mótmæltu öfgahægrihreyfingum, sér í lagi öfgahægriflokknum AfD, víða um Þýskaland á minningardeginum.
Mótmælin koma í kjölfar nýrrar og öfgakenndrar innflytjendastefnu stjórnmálaflokksins AfD. Í henni felst fjöldabrottvísun þýskra ríkisborgara af erlendum uppruna.
Rökræður um hvort banna eigi stjórnmálahreyfingar sem tileinka sér öfgahægristefnu hafa síðan þá gengið á.
Í ávarpi sínu á minningardegi helfararinnar í gær sagði Scholz tilkynningum um nýnasistahreyfingar og spjallþræði þeirra fara fjölgandi. Og á sama tíma hljóti hægri sinnaðar popúlistahreyfingar síaukið fylgi, sem ýti undir ótta og hatur.
„En þessi þróun er ekki eitthvað sem við getum tekið í sátt,“ sagði Scholz og biðlaði til Þjóðverja að standa saman gegn öfgahægrinu og vernda þýska lýðræðið.
Þá fagnaði hann tímamótaúrskurði stjórnlagadómstóls Þýskalands sem kveðinn var upp á miðvikudag. Í honum felst að skera niður fjárframlög til öfgahægriflokksins Die Heimat. Um er að ræða fyrsta skiptið þar sem dómstóllinn framkvæmir slíkan niðurskurð til stjórnmálaflokks án þess að leggja niður flokkinn.
Mótmælendur gegn öfgahægrihreyfingunum binda vonir við að úrskurðurinn verði til þess að fylgi AfD hjaðni, en það er komið upp í tuttugu prósent á landsvísu í Þýskalandi. Þingkosningar eru fyrirhugaðar í júní á þessu ári.